Scratch stýrt með rofa

Í öðrum hluta tengduð þið ljóstvista við GPIO pinna og stýrðuð ljósinu með Scratch forriti. Þá létuð þið atburð ræsa röð skipana (einnig kallað „stefja“). En atburðirnir sem Scratch hefur innbyggða krefjast allir lyklaborðs eða músar.

Nú ætlum við að skoða hvernig við getum ræst röð skipana með rofa eða skynjara tengdum við GPIO pinna.

Fyrst tökum við rofa, viðnám og karl-kven-tengi og tengjum þau eins og sýnt er á myndinni (tengið þarf ekki að vera blátt). Gætum þess að annar endi viðnámsins gangi ofan í neikvæðu (mínus) brautina, og að hinn endinn, karl-tengið og einn tengivír hnappsins séu allir í sömu röðinni.

 

Tengjum svo hinn enda karl-kven-tengisins í einhvern númeraðan GPIO pinna. Hér höfum við tengt hann í pinna 17, en það má alveg velja einhvern annan ef númer 17 er í notkun. Gætið þess bara að breyta forritinu til samræmis.

Tökum svo stuttan karl-karl-tengivír og tengjum á milli jákvæðu (plús) brautarinnar og hins enda hnappsins. Það er guli vírinn á myndinni.

Setjum svo saman forrit eins og þetta á myndinni. Gætið þess að númer GPIO pinnanna séu rétt miðað við tengingarnar hjá ykkur.

Hér er pinni 17 tengdur við hnappinn, og pinni 4 tengdur við ljóstvist.

Forritið endurtekur endalaust spurninguna: „er pinni 17 hár“. Með því er spurt hvort hann sé nær því að vera jákvæður eða neikvæður. Ef ekki er þrýst á rofann er pinni 17 tengdur í gegnum viðnámið við neikvæðu brautina og er því neikvæður/lágur.

Ef við þrýstum á hnappinn er pinni 17 beintengdur við jávkæðu brautina og því jákvæður/hár.

Nú getum við stýrt ljósinu með því að þrýsta á hnappinn.

Prufið nú að stýra ljósasýningunni ykkar með hnappi. Þið getið ræst stefjur með hnappinum, notað mismunandi hnappa til að ræsa mismunandi stefjur eða eitthvað álíka.