Ljóskastararnir: Litablöndun ljóss

Uppsetning

Þetta verkefni virkar best ef það er unnið í nokkuð góðu myrkri. Það má koma þeim fyrir í kassa eins og í ljósfræðiherberginu í Vísindasmiðjunni, en með því að hafa þá staka næst öllu meiri sveigjanleiki. Ljóskastararnir eru ekki fullkomlega jafn bjartir og því fæst ekki alveg hvítur litur ef þeim er varpað á hvítan flöt. Litinn má hins vegar stilla með því að stilla fjarlægðina.

Hægt er að koma kösturunum fyrir í myrkvuðu rými. Ef ekki er aðgengi að slíku herbergi má líka skerma af með myrkvunargluggatjöldum sem lögð eru yfir t.d. borð.

Verkefnahugmyndir

Könnun: Litablöndun

Blandið saman ljósinu frá ljóskösturunum þremur með því að varpa því á hvítan flöt. Hvaða litir fást þegar tvö og tvö ljós blandast? Hvað með ef öll þrjú blandast saman?

Varpið kösturunum þremur upp á vegg og skoðið skuggana. Hvað getið þið séð marga liti (þeir ættu að vera grunnlitirnir rauður, grænn og blár, blöndurnar ljósblár, gulur og fjólublár, og svo hvítur og svartur)?

Stillið ljóskösturunum upp mislangt frá fletinum til að breyta styrk hvers litar fyrir sig. Finnið liti í umhverfinu (t.d. appelsínugulan) og endurskapið þá með litunum. Finnið þið liti sem ekki er hægt að endurskapa (dæmi um slíka liti eru flúrljómandi litir)?

Könnun: Endurkast

Varpið núna ljósunum þremur á litríka hluti. Takið svo eitt eða tvö ljós í burtu. Lýsið því hvernig litirnir breytast.

Rauðir fletir virðast svartir ef ekkert rautt ljós er til staðar. Appelsínugulur og bleikur eru dæmi um liti sem breytast mikið, en áhrifin af bláum og grænum eru talsvert minni.

Könnun: Flúrljómun

Skoðið flúrljómandi liti í bláu ljósi. Dæmi um flúrljómandi liti eru gulir og appelsínugulir litir í sýnileikafatnaði.

Vinnusmiðja: Litablöndunarlistaverk

Málið listaverk úr frumlitunum (með eða án þess að blanda þeim saman) og skoðið það í mismunandi lituðu ljósi.

Áhrifin eru mest ef litirnir flúrljóma ekki. Það er auðveldast að gera með því að skoða litina í bláu ljósi og kanna hvort þeir endurkasti öðrum litum. Þetta sést ennþá betur með útfjólubláu ljósi/svartljósi (e. blacklight). Það má nota annað hvort gulan, rauðan og bláan eins og mörg þekkja úr myndmennt, eða ljósbláan, gulan og bleikan eins og prentarar nota.

Tengdar stöðvar í Vísindasmiðjunni