Skautunarsíur: Skautun ljóss

Uppsetning

Síur lagðar á borð. Gæta þess að rispa þær ekki of mikið. Það er hægt að smíða ramma í kringum síurnar til að verja þær.

Verkefnahugmyndir

Könnun: Ljósstyrkur

Leggið tvær skautunarsíur saman. Hvað breytist þegar annarri er snúið miðað við hina? Krossið síurnar þannig að ekkert ljós kemst í gegn. Setjið þriðju síuna á milli hinna tveggja og lýsið því hvað gerist.

Könnun: Skautun speglunar

Skoðið umhverfið í kringum ykkur með einni skautunarsíu og snúið henni á ýmsa vegu. Skoða sérstaklega speglandi fleti. Hvaða mun sjáið þið eftir því hvernig hvernig sían snýr sem þið horfið í gegnum?

Könnun: Tvíbrot

Leggið gegnsætt tvíbrjótandi efni (eins og límband, plast utan af páskaeggjum, eða teygðan strimil af byggingarplasti) á milli tveggja skautunarsía, snúið á ólíka vegu og skoðið litina sem myndast. Hvernig er best að snúa efninu miðað við skautursíurnar?

Vinnusmiðja: Límbandslistaverk

Glært valsað límband (þetta klassíska) lagt á plastþynnu (t.d. plexigler) og skoðað með því að leggja á milli skautunarsía. Föndursmiðja þar sem listaverk eru gerð með því að framkalla liti með misþykkum stöflum límbands sem snúa samsíða eða ólíkt.

Límið límband á bökunarpappír og skerið út munstur með skærum eða beittum hníf á skurðarplatta. Fjarlægið svo límbandið af pappírnum og leggið á plastþynnuna. Endurtakið svo og byggið upp nokkur lög af límbandi. Athugið að með því að leggja límbandið í sömu stefnu fást nýir litir eftir því hversu þykkur staflinn verður, en með því að leggja límbandið þvert á það sem undir er núllast áhrifin út.

Tengd fyrirbæri utan Ljósakassans

Skautuð sólgleraugu

Sum sólgleraugu nota skautunarsíur til að draga úr speglun við lárétta fleti. Slík sólgler eru þá sögð skautuð (e. polarized).

3D bíógleraugu

Sum þrívíddarbíógleraugu eru gerð úr skautunarsíum og svokölluðum lambda-kvart-plötum. Þær virka á sambærilegan hátt og venjulegu skautunarsíurnar en í stað þess að sía út t.d. lóðrétt og lárétt skautað ljós, sía þær út réttsælis og rangsælis skautað ljós. Þannig er hægt að fylgjast með bíómyndinni þótt höfðinu sé hallað til hliðar.

Ef horft er í gegnum slík gleraugu á einstakling með annað par slíkra gleraugna, eða á sjálfan sig í spegli, virðist annað glerið verða svart.

Silfurberg

Silfurberg er kristall sem hefur merkilegan eiginleika. Kristallinn er tvíbrjótandi þannig að brotstuðull hans er ólíkur eftir tveimur ásum kristalsgrindar hans. Þetta veldur því að þegar horft er í gegnum silfurberg sést tvöföld mynd. Myndirnar hafa hins vegar sitt hvora skautunarstefnuna og því hægt að loka fyrir aðra hverja með því að líta á þær í gegnum skautunarsíu.

Tengdar stöðvar í Vísindasmiðjunni

Til kennara

Það er hægt að fá áfyllingu á skautunarsíurnar.