Þráðlaus samskipti

Í þessu verkefni sendum við gögn á milli tveggja micro:bit tölva og notum þau til að stýra hvor öðrum

Tækjabúnaður

  • Tölvu með USB tengi
  • USB kapal með Micro-USB tengi (sem passar í Microbit tölvuna)
  • Microbit tölvu

Framkvæmd

Búum til forrit sem sýnir bros- eða fýluandlit eftir því hvort ýtt er á A eða B takka á senditæki.

1

Stilltu útvarpshópinn.
Þegar micro:bit-inn sendir boð á hópinn skynja það allar micro:bit tölvur á þeim hópi. Því þarf að gæta að það verði ekki árekstrar á milli tveggja tækja sem eru að nota útvarpssamskipti. Það ætti þó ekki að vera erfitt því hægt er að velja um 256 hópa, frá 0 upp í 255.

2

Sendu tölur á útvarpshópinn eftir því á hvorn takkan var þrýst.
Sendu „1“ þegar ýtt var á takka A og „2“ þegar ýtt var á takka B. Það mætti samt velja hvaða tölur sem er; það þarf bara að gæta þess að senditölvan og móttakarinn séu sammála.

3

Sýndu mynd á skjánum eftir því hvaða strengur var móttekinn.
Stilltu á bros þegar „1“ er móttekið og fýlusvip þegar „2“ er móttekið.

4

Tengdu micro:bit tölvuna við tölvuna sem þú ert að skrifa forritið á og hladdu því niður á micro:bit-ann.
Ef þú þarft að rifja upp hvernig það er gert geturðu rennt í gegnum þessar leiðbeiningar.

Næstu skref

Gerðir sendigagna

Gögn má senda á þrjá vegu: Sem tölu, sem streng og sem lykil-gildis-par. Talan hentar vel þegar einfaldlega er verið að senda eitt gildi (eins og hitastigið í fjarhitamælisdæminu hér að neðan). Strengurinn hentar þegar senda á texta eða álíka. Í dæminu hér að ofan hefði alveg eins mátt nota tölur í stað textastrengja.

Lykil-gildis-par hentar þegar verið er að senda ólík gildi. Til dæmis ef það ætti að senda hitastig og nótur til að spila. Þá mætti senda hiti=24 og nóta=C á micro:bit-a sem mundi sýna hitastigið á skjánum og spila nótuna C með hátalara.

Lýsigögn

Þegar micro:bit tölvurnar senda gögn fylgja með ákveðin auka gögn: Sendistyrkur gagnanna, tími sendingarinnar, og raðnúmer senditækisins. Þessi gögn lýsa gögnunum og eru því kölluð lýsigögn (e. metadata). Raðnúmer senditækisins á t.a.m. nota til að kanna hvort tæki hafi sent áður, eða tryggja að aðeins ákveðið tæki geti virkjað atburði.

Ítarefni

Hér að neðan eru nokkur dæmi um ólík verkefni sem öll byggja á því að tvær tölvur tali saman.

Fjarhitamælir

Þetta mjög einfalda verkefni var upphaflega sett saman til að vakta hitastig heits potts til þess að ekki þurfi að fara út í kuldann til að kanna hvert hitastigið var. Gott dæmi um hversu auðvelt er að láta tæknina vinna fyrir okkur.

Forritið er gert úr tveimur hlutum: hitanema og skjá. Hitaneminn nemur hitastig tölvunnar (sem er nokkuð nærri umhverfishitanum) og sendir í sífellu út á útvarpshópinn, og skjárinn birtir hitastigið þegar hann móttekur skilaboðin á sama útvarpshóp. Forritin má finna hér:

Snapbit

Snapbit er Snapchat fyrir micro:bit. Hnappur A færir bendil til á skjánum og hnappur B hveikir eða slekkur á þeim depli sem undir bendlinum er. Þegar þrýst er á báða hnappana í einu sendir micro:bit tölvan myndina út á sameiginlega útvarpsrás.

Sjá má lýsingu í þessari færslu í Kóðað til góðs hópnum á Facebook og forritið má finna hér.

Spurningabjalla

Umsjónarfólk Kóðinn 1.0 verkefnisins bjó til spurningabjöllu þar sem nokkrir micro:bit-ar gátu keppst um að vera fyrstir til að hringja bjöllunni á micro:bit tölvu sem dómarinn var með. Verkefnið er glatað, en hugmyndin góð og skemmtileg áskorun að útfæra.bb