Í þessari vinnusmiðju ætlum við að búa til marglitt listaverk og skoða blöndun litarefnanna, og ljóssins, og víxlverkun ljóssins við litarefnin.
Efni og áhöld
- Málning, litaðir pappírssneflar eða litaðar límbandsrúllur (í raun hvað sem er sem nota má til að búa til marglitt listaverk.
- Ljósgjafar með rauðu, grænu og bláu ljósi.
Framkvæmd
Búðu til listaverk úr ólíkum litum.
Prófaðu að nota sem flesta liti.
Skoðaðu myndina undir mismunandi ljósi.
Skoðaðu hana t.a.m. undir bara rauðu ljósi eða bara bláu og athugaðu hvaða litir endurkasta ljósinu.
Ýmsar útfærslur
Breyttu eða bættu við myndina og prófaðu ólíka liti.
Litarefni endurkasta ólíkum litum. Skynjun okkar á rauðum er svolítið sér á báti á meðan skynjun okkar á bláum og grænum skarast nokkuð. Þess vegna líta rauð litarefni út fyrir að vera svört ef þau eru skoðuð án rauðs ljóss. Skynun okkar á bláu ljósi nær hins vegar svolítið út í grænt (og öfugt) svo ef við skoðum blátt litarefni undir grænu ljósi hverfur endurkastið frá því ekki alveg heldur lítur út fyrir að vera grænleitt.
Prófaðu að skoða "neonliti" undir bláu ljósi.
Ekki öll rauðleit litarefni virðast svört ef ekkert rautt er í ljósinu. Sum halda rauðum keim en verða talsvert dekkri. Slík litarefni eru sögð "ljóma" en það er þegar litarefni draga í sig orkuríkt ljós (t.a.m. blátt ljós) og gefa það frá sér sem aðeins orkuminna ljós (t.a.m. rautt eða gult). Þannig er hægt að búa til litarefni sem líta út fyrir að vera sérstaklega gul (þá oft kallað "neongult", en nær lagi væri að kalla það "gul-ljómandi") vegna þess að ekki aðeins endurkastar litarefnið gulum heldur einnig gefur það frá sér aukalega gult ljós.
Prófaðu líka að skoða ljómandi liti án þess að skína bláu ljósi á það (og jafnvel líka án græns ljóss). Þá ætti ljómandi liturinn að vera öllu daufari og "venjulegari".
Ef þú ert með ljómandi liti og svartljós (e. blacklight) geturðu prófað að skoða ólíka liti undir því.
Mörg efni ljóma án þess að við tökum sérstaklega eftir því. Hvítur pappír er með ljómandi litarefnum í og sömuleiðis sum þvottaefni fyrir hvítan þvott. Sumar gerðir varasalva eru ljómandi og oft er málning ljómandi. Svo er hægt að fá sérstaka ljómandi málningu.