Vinnusmiðja: Límbandslistaverk

Glært valsað límband (þetta klassíska) lagt á plastþynnu (t.d. plexigler) og skoðað með því að leggja á milli skautunarsía. Föndursmiðja þar sem listaverk eru gerð með því að framkalla liti með misþykkum stöflum límbands sem snúa samsíða eða ólíkt.

Límið límband á bökunarpappír og skerið út munstur með skærum eða beittum hníf á skurðarplatta. Fjarlægið svo límbandið af pappírnum og leggið á plastþynnuna. Endurtakið svo og byggið upp nokkur lög af límbandi. Athugið að með því að leggja límbandið í sömu stefnu fást nýir litir eftir því hversu þykkur staflinn verður, en með því að leggja límbandið þvert á það sem undir er núllast áhrifin út.

Efni og áhöld

Í þessari vinnusmiðju ætlum við að búa til "ósýnilegt" listaverk úr límbandi og skoða hvernig það birtist þegar við bregðum skautunarsíum beggja vegna þess.

  • Glært undirlag. Plexiglerplata virkar vel en glærur ganga einnig.
  • Glært límband. Til að geta skorið ólík mynstur út úr því er gott að hafa það breitt (t.d. tveggja tommu/pökkunarlíband).
  • Skurðarhnífur, dúkahnífur eða skæri
  • Skurðarbretti (ef þú notar hníf til að skera út formin)
  • Smjörpappír
  • Tvær skautunarsíur

Framkvæmd

1

Límdu límbandsbút á smjörpappírinn.
Smjörpappírinn gerir það auðveldara að skera eða klippa út formin án þess að límbandið límist við sjálft sig.

2

Skerðu eða klipptu út nokkur form.
Límbandið hefur ólíka eiginleika þvert á og samsíða límbandsrúllunni. Gættu þess að fylgjast með hvernig áttirnar snúa á límbandsforminu þínu.

3

Límdu formin á undirlagið (plexiglerplötuna/glæruna).
Hvert lag af límbandi mun gefa nýjan lit. Ef límböndin liggja öll samsíða mun hver þykkt gefa sinn lit. Ef tveir límbandsbútar liggja þvert á hver annan (mundu að áttirnar miða við hvernig límbandið lá á rúllunni) munu þeir vega á móti hvor öðrum þegar þeir eru skoðaðir með skautunarsíunum og því munu ekki sjást nein áhrif af þeim.

4

Legðu listaverkið þitt á milli skautunarsía.
Athugaðu að afstaða listaverksins breytist eftir því hvernig þú snýrð síunum og listaverkinu. Mest áhrif fást þegar skautunarstefnur síanna eru hornréttar hvor á aðra (þegar ekkert ljós kemst í gegnum þær) og þegar skautunarstefnur límbandsins (miðað við legu þess á rúllunni) eru mitt á milli skautunarstefna síanna.
Prófaðu að snúa þessu og sjá hvernig litirnir birtast og hverfa á víxl.

Ýmsar útfærslur

A

Skoðaðu listaverkið á myndvarpa.
Ef þú ert með aðgang að myndvarpa er mjög skemmtilegt að varpa gegnsæju listaverkinu upp á vegg.

Tengdar stöðvar í Vísindasmiðjunni