GPIO pinni forritaður

Við þurfum að byrja á því að sækja viðbót fyrir GPIO pinnana. Það gerum við með því að fara í flokkinn „Fleiri blokkir“ og smella á „Bæta við viðbót“.

Þá sprettur upp gluggi sem býður okkur að setja inn tvær viðbætur. Við veljum „PI GPIO“.

Þá bætast við tvær nýjar blokkir: Blokk til að stilla GPIO pinna og blokk til að lesa stöðu pinna.

Nú þurfum við að tengja ljósið okkar við einhvern pinna sem við getum stjórnað. Skiptið út rauða tenginu úr síðasta verkefni fyrir karl-konu tengi sem tengir jákvæðu hlið ljóstvistsins við einhvern númeraðan pinna á tölvunni.

Til að ræsa forritið þurfum við að velja einhvern atburð. Það má ræsa viðburði með því að slá á lykla á lyklaborði, þegar smellt er á græna flaggið eða teikningar á sviðinu.

Við kveikjum svo eða slökkvum á pinnunum með því að stilla þá á háa eða lága spennu (e. high, low) sem samsvarar plús og mínus.

Svo getum við líka látið ljósið blikka með því að kveikja og slökkva á pinnanum með einhverri bið á milli skipananna, og gert það í sífellu með því að setja skipanirnar í endurtekningarblokk.